Traust afkoma Garðabæjar, skuldahlutfall lækkar verulega og áframhaldandi uppbygging

Seeking Alpha / 2 Views


Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2026 gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða verði jákvæð um 595 m.kr. Fyrri umræða um áætlunina fór fram í dag, fimmtudaginn 6. nóvember, í bæjarstjórn Garðabæjar.

„Við horfum fram á traustan og öruggan rekstur áfram í vaxandi bæ. Staða bæjarins styrkist frá ári til árs, við sjáum það núna á stórlækkuðu skuldahlutfalli og mun lægri fjármagnsgjöldum. Góð og örugg þjónusta verður áfram í forgrunni og afmælisárið 2026 verður gott fyrir íbúa og rekstur bæjarins,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.

Rekstrartekjur ársins 2026 eru áætlaðar 36.677 m.kr., rekstrargjöld 32.299 m.kr. og rekstrarniðurstaða samstæðu bæjarins 595 m.kr. Fjármagnsgjöld samstæðunnar lækka um 365 m.kr. milli áranna 2025 og 2026 og veltufé frá rekstri er áætlað 2.486 m.kr. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A-sjóðs verði 76 m.kr.

Umtalsverðri uppbyggingu í bænum hafa fylgt miklar framkvæmdir undanfarin ár og svo verður áfram. Á sama tíma sýnir áætlunin að skuldaviðmið lækkar úr 104,5% í 93,4% á tveimur árum. Heildarskuldir sveitarfélagsins hækka samtímis hóflega og áætlað er að skammtímaskuldir lækki um 1.550 m.kr á tveimur árum.

„Þrátt fyrir að áætlunin sýni trausta stöðu sjáum við líka að hægt hefur á bata í grunnrekstri sveitarfélagsins. Meginskýringin á því er að viðbótarkostnaður við kjarasamninga hefur verið mikill og virðist vera umfram það sem gengið var út frá við gerð þeirra. Við gerum ráð fyrir að grunnrekstur styrkist svo jafnt og þétt á næstu árum. Við sjáum því skýran árangur í rekstri og við munum áfram standast kröfur íbúa um metnaðarfulla þjónustu og sterka innviði samhliða uppbyggingu,“ segir Almar.

Gert er ráð fyrir að framkvæmt verði á árinu 2026 fyrir 6.404 m.kr. Stærstu verkefnin eru íþróttahús og sundlaug í Urriðaholti, fráveituverkefni á Álftanesi, stækkun tónlistarskólans, bygging búsetukjarna í Hnoðraholti og endurbætur á íþróttamannvirkjum. Hápunktur ársins 2026 er að sjálfsögðu 50 ára kaupstaðarafmæli Garðabæjar, sem verður fagnað með eftirminnilegum viðburðum og skemmtunum sem dreifast yfir allt árið.

Vakin er athygli á því að fjárhagsáætlun Garðabæjar verður aftur til umfjöllunar á bæjarstjórnarfundi 4. desember nk. Milli umræðna hefur tíðkast að gera breytingar í samræmi við umræðu og áherslur bæjarstjórnar. Til dæmis er áformað að fasteignaskattur verði lækkaður, en að auki er gert ráð fyrir að ýmis áhersluverkefni verði afgreidd og áframhaldandi hagræðing í rekstri bæjarins útfærð.

Áætlunin mun því taka einhverjum breytingum á milli umræðna í bæjarstjórn Garðabæjar.

Comments